Haraldsssafn

Haraldssafn er deild í Bókasafni Akraness. Bækur þaðan eru eingöngu lánaðar í lessal. Safnið er einkabókasafn Dr. phil. Haralds Sigurðssonar (1908 - 1995) og Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og telur um 4000 bindi. Akraneskaupstaður keypti safnið árið 1994. Haraldur var frá Krossi í Lundareykjadal. 

Í Haraldssafni er mikið safn íslenskra þjóðsagna, nær öll íslensk tímarit í frumútgáfu frá því að útgáfa þeirra hófst og fram yfir miðja 19. öld svo og helstu tímarit eftir það. Það er einnig mjög merkt safn fornrita, m.a. gamlar útgáfur af Eddukvæðunum og flestar útgáfur Heimskringlu og Sturlungu. Auk þess safnaði Haraldur Sigurðsson öllum útgáfum ritverka einstakra höfunda og eru rit Halldórs Laxness þar merkust. Stærsta sérsafnið í Haraldssafni er bókakostur um landafræði Íslands og undirgreinar hennar. Ferðabækur eru snar þáttur í þessari og fjalla þær m.a. um ferðir erlendra manna um Ísland.

Mjög hefur verið vandað til bands og annars frágangs á bókum Haraldssafns og eiga flestir færustu handverksmenn í bókbandi sér minnisvarða í þessu bókasafni.