Leirárgarða - og Beitistaðaprent

Í tilefni af 60 ára kaupstaðarafmæli Akraneskaupstaðar ákvað bæjarstjórn Akraness að kaupa safn prentaðs efnis frá Leirárgörðum og Beitistöðum af Birni Jónssyni (1927 - 2011) fyrrverandi sóknarpresti á Akranesi og færa Bókasafni Akraness að gjöf. Var gjöfin afhent þann 26. febrúar 2002, en þann dag voru liðin þrjátíu ár frá því að safnið flutti í húsnæði að Heiðarbraut 40. 

Á síðustu árum átjándu aldar og í byrjun þeirrar nítjándu fór öll prentstarfsemi á Íslandi fram í Suður-Borgarfirði, að Leirárgörðum og síðar Beitistöðum. Í tilefni 60 ára afmæli Akraneskaupstaðar 2002 þótti einkar vel við hæfi að festa kaup á þessum gersemum til varðveislu í Bókasafni Akraness. Keyptar voru bækur í eigu sr. Björns Jónssonar. Birni Jónssyni var mjög hugleikið að Leirárgarða- og Beitistaðaprent yrði varðveitt sem næst útgáfustað sínum. Með bókagjöf sr. Björns árið 2011 bætist við safnið fleiri rit frá prentsmiðjunum, auk fágætra frumútgáfa íslenskra bóka, Vesturheimsprent, og gömul íslensk tímarit. 

Sumarið 1795 var prentsmiðjan í Hrappsey flutt að Leirárgörðum að tilhlutan Magnúsar Stephensen konferensráðs. Magnús var lífið og sálin í Landsuppfræðingarfélaginu sem stofnað var til að veita ferskum straumum út í þjóðlífið á mjög erfiðum tímum í sögu þjóðarinnar. Voru upplýsing og fræðsla grundvallarmarkmið Landsuppfræðingarfélagsins. Árið 1799 var prentsmiðjunni á Hólum einnig bætt við Leirárgarðaprentsmiðjuna. Útgáfustarfsemin að Leirárgörðum og Beitistöðum stóð til ársins 1819 en þá var prentsmiðjan flutt út í Viðey. 

Björn Jónsson og kona hans Sjöfn Pálfríður Jónsdóttir gáfu árið 2011 einkabókasafn sitt til Bókasafn Akraness og bættist þá enn við safnað efni sem prentað var að Leirárgörðum og Beitistöðum, auk fágætra frumútgáfa íslenskra bóka, Vesturheimsprent, og gömul íslensk tímarit. Birni Jónssyni var mjög hugleikið að Leirárgarða- og Beitistaðaprent yrði varðveitt sem næst útgáfustað sínum. 

Í safni dr. phil. Haraldar Sigurðssonar eru einnig nokkrar bækur úr Leirárgarða- og Beitistaðaprenti þannig að Bókasafn Akraness varðveitir nú meginhluta prentaðs efnis sem gefið var út á Íslandi á árunum 1795 - 1819. Með í kaupunum á Leirárgarða- og Beitistaðaprenti fylgdu blöð og rit Odds sterka af Skaga. Sem dæmi um titla má nefna Harðjaxl, Endajaxl og Smábrot úr ævisögu minni.